29.5.06

Miðbærinn og kosningarnar

Jæja nú býður maður spenntur eftir því hvernig kjörnir borgarfulltrúar ætla að mynda meirihluta. Hvort Ólafur F ætlar í samstarf með gamla R-listanum eða að skríða aftur upp í með sínum fyrrverandi.
Mér finnst svo oft fólk tala um að miðbærinn sé slæmur og þar verði að taka til hendinni. Að það sé ógeðslegt í bænum og hættulegt fyrir börn o.s.frv.
Ég er svo gjörsamlega ósammála þessu og held að þeir sem þetta segja búi í úthverfum og þekki ekki miðbæinn, fari bara þangað bara til að djamma og sjái þá miðbæinn bara þannig.
Ég geng í miðbænum oft í viku, ef ekki daglega og það alltaf er líf í bænum. Þegar það er gott veður er alveg troðið og ef það er kalt er líka fólk.
Stundum hefur mér dottið í hug að selja húsið í miðbænum og kaupa ódýrara lengra í burtu, en alltaf kemst ég að þeirri niðurstöðu að ég vil bara búa í miðbænum. Maður getur gengið niður á Laugarveg, skoðað í búðarglugga, farið niður að tjörn, sest inn á kaffihús eða út ef gott er veður. Það er frábært að setjast á Austurvöll að sumri til og fá sér einn bjór, meðan krakkarnir finna sér vini í kring :o) Það er ekki svona stress eins og er alltaf í Kringlunni.
Það er rosalega gaman að ganga göturnar í kring líka, Grettisgötuna, Njálsgötuna, Kárastíginn :o).... Skoða húsin og sjá að flestir hugsa vel um húsin sín. Alls staðar er verið að gera upp það er gamalt og fallegt!
Miðbærinn er uppáhalds staðurinn minn. Gömlu fallegu húsin og meira að segja þau sem eru í niðurníðslu hafa sinn sjarma. Á Lækjartorgi eru krakkar að dansa og Ingólfstorgi að renna sér á hjólabrettum.
Það sem þarf að gera fyrir miðbæinn er að passa að þeir sem vilja bara græða peninga komist ekki í lóðirnar sem eru þar. Það virkar nefninlega ekki hérna. Ef maður gengur Laugarveginn eru það frekar stóru nýju húsin sem standa auð.
Það eru nokkur hús við Laugarveginn sem mættu alveg fara, en það á alls ekki að byggja risavaxnar byggingar þar. Í tillögu sem liggur fyrir núna á að rífa 2 hús(Lífstykkjabúðina og Nikebúðina) sunnan megin og reisa 4-5 hæða hús. Það þýðir að sólin hverfur alveg þar. Hvort viljum við 5 hæða hús eða fólk?
Ég trúi því að fyrst það tókst að gera Skólavörðustíginn svona fallegan er líka hægt að gera það sama við Hverfisgötuna.
Svo er það Lækjartorg. Það þarf að opna samkeppni um að gera Lækjartorgið glæsilegt. Klára tónlistarhúsið og tengja það við miðbæinn.
Svo vil ég bíllausa langa laugardaga!
Svo þarf fólk að kenna börnunum sínum að henda rusli í ruslaföturnar og þá er miðbærinn orðinn fullkominn :o)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home